Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 436. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 740  —  436. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA fyrir árið 2008.

1. Inngangur.
    Alþjóðavæðing efnahagslífsins og viðskiptafrelsi er mikilvægt fyrir íslenska hagkerfið eins og önnur smá hagkerfi sem eru háð milliríkjaviðskiptum. Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna þar veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 29 önnur Evrópuríki með um 500 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB eða svonefnd þriðju ríki. Í starfsemi þingmannanefnda EFTA og EES árið 2008 voru tvö mál einkum í brennidepli framan af ári. Annars vegar var fjallað ítrekað um framtíðarhorfur EES og hins vegar um áframhaldandi gerð fríverslunarsamninga EFTA. Í kjölfar bankahrunsins á Íslandi í október kom fjármálakreppan og yfirstandandi efnahagsþrengingar til umfjöllunar í nefndunum.
    Í umfjöllun um framtíðarhorfur EES var einkum horft til þeirra breytinga sem orðið hafa á stofnanauppbyggingu ESB síðan EES-samningurinn tók gildi fyrir 15 árum og áhrifa þeirra á framkvæmd samningsins. Í fyrsta lagi eru skil milli innri markaðar og annarra sviða í tilskipunum ESB orðin óljósari og því erfiðara að skilgreina hvaða tilskipanir á að taka upp í EES-samninginn og innleiða í EES/EFTA-ríkjunum. Í öðru lagi hafa breytingar á skipulagi ESB haft í för með sér að áhrif Íslands og annarra EES/EFTA-ríkja á lagasetningu sambandsins, sem síðar er tekin upp í EES-samninginn, hafa minnkað. EES/EFTA-ríkin hafa aðgang að vinnuhópum framkvæmdastjórnar ESB sem vinna drög að tilskipunum sambandsins. Áhrif ráðherraráðsins og Evrópuþingsins á löggjöf hafa aukist verulega á kostnað framkvæmdastjórnarinnar. Drög að tilskipunum taka oft miklum breytingum frá því að þau fara frá framkvæmdastjórninni og þar til þau eru samþykkt af ráðherraráði og Evrópuþinginu án þess að EFTA-ríkin eigi þar formlega aðkomu og áhrif.
    Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA. Með aukinni svartsýni á að árangur náist í Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) hafa samtök ríkja og einstök lönd beint sjónum sínum að gerð tvíhliða fríverslunarsamninga. EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði og eru gildir fríverslunarsamningar EFTA nú 17 talsins. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga.
    Fjármálakreppan kom til umfjöllunar á fundum þingmannanefnda EFTA og EES og vinnur þingmannanefnd EES nú að úttekt á áhrifum hennar á EES. Í kjölfar bankahrunsins á Íslandi fór fram sérstök umræða um efnahagsástandið hér á landi á fundi þingmannanefndar EES í nóvember 2008.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru fyrir af þingmannanefndum EFTA og EES árið 2008 má nefna heilbrigðisþjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu, rannsóknar- og menntaáætlanir ESB og EES/EFTA-ríkin, Lissabon-sáttmála ESB, Doha-samningalotu WTO, aðgerðir gegn loftslagsbreytingum í hnattvæddu hagkerfi og óskir Færeyinga um aðild að EFTA.

2. Almennt um þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja sitja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt, í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku samningsins varð nefndin að formi til tvískipt þar eð Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi, en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES-samninginn eru tekin fyrir. Í frásögnum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Alþingi á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA líkt og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi fjórum til fimm sinnum á ári, og á tveimur fundum sínum á hún auk þess fund með ráðherraráði EFTA. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og ESB, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við. Þessi þáttur í starfi EFTA vex stöðugt og eru fríverslunarsamningar nú umfangsmikill hluti starfssviðs EFTA.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA undirbýr starf nefndarinnar og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), auk þess að fjalla um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þjóðþing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki, en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Auk formanns hefur af hálfu Íslandsdeildar einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.
    Þingmannanefnd EES var komið á fót skv. 95. gr. EES-samningsins og er hluti af stofnanakerfi hans. Í þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá EFTA-ríkjunum sem aðild eiga að EES (EFTA-hluti sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni á milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur ákveðin málefni til skoðunar, skrifar um þau skýrslur og samþykkir ályktanir. Skýrslugerð um mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna, annars úr hópi EFTA-þingmanna og hins úr hópi Evrópuþingsmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð, en nefndin samþykkir venjulega ályktun þegar umfjöllun um málið er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA/EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB mæta á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.

3. Skipan Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA.
    Í kjölfar alþingiskosninga var ný Íslandsdeild kjörin 31. maí 2007 í upphafi 134. þings. Samkvæmt breytingum á þingsköpum gildir sú kosning deildarinnar fyrir allt kjörtímabilið. Þingið getur þó hvenær sem er kosið að nýju ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um. Íslandsdeildina skipa Katrín Júlíusdóttir, formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Bjarni Benediktsson, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Árni Þór Sigurðsson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Illugi Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn eru Ármann Kr. Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Ólöf Nordal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar.

4. Starfsemi Íslandsdeildar.
    Íslandsdeildin var venju samkvæmt mjög virk í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndunum. Íslandsdeildin hélt fjóra fundi á árinu. Þar var starfsemi Íslandsdeildar skipulögð og þátttaka í fundum þingmannanefnda EES og EFTA undirbúin. Þá var Íslandsdeildin gestgjafi fundar þingmannanefndar EES sem haldinn var í Svartsengi í apríl.
    Katrín Júlíusdóttir var skýrsluhöfundur einnar af fjórum skýrslum þingmannanefndar EES ásamt breska Evrópuþingmanninum Diana Wallis. Í vinnuskýrslunni var fjallað um hvernig breytingar á stofnanauppbyggingu og starfsemi Evrópusambandsins á síðustu 15 árum hafa haft áhrif á framkvæmd EES-samningsins (sjá nánar umfjöllun um 30. og 31. fund þingmannanefndar EES).
    Fjármálakreppan kom til umfjöllunar á fundum þingmannanefnda EFTA og EES. Í kjölfar bankahrunsins á Íslandi fór fram sérstök umræða um efnahagsástandið hér á landi að frumkvæði Íslandsdeildar á fundi þingmannanefndar EES í nóvember 2008.
    Venja er að Íslandsdeildin haldi fund með Evrópunefnd þjóðþings þess ríkis sem stendur næst í röðinni til þess að taka við formennsku í ESB, en nýtt formennskuríki tekur við á sex mánaða fresti. Frakkar tóku við formennsku á miðju ári 2008 og Tékkar í ársbyrjun 2009. Tilgangur slíkra funda er annars vegar að kynna þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi í krafti aðildar að EES-samningnum og þátttöku í Schengen, og hins vegar að fræðast um áherslur hins tilvonandi formennskuríkis.
    Íslandsdeildin átti fund með fulltrúum Evrópunefndar franska þingsins í París 1. júlí, sama dag og Frakkar tóku við formennsku. Daniel Garrigue, varaformaður nefndarinnar, gerði grein fyrir helstu áherslumálum í formennskuáætlun Frakka en þær liggja einkum á fjórum sviðum sem eru loftslagsbreytingar og orkumál, innflytjenda- og flóttamannastefna, varnarmál og landbúnaðarstefna. Annars er stærsta verkefni frönsku formennskunnar að hafa forustu um lausn á málefnum Lissabon-sáttmála ESB eftir að sáttmálinn var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu á Írlandi 12. júní. Garrigue lagði áherslu á stefnu Frakka um að fullgildingarferlinu yrði haldið áfram og að öll aðildarríkin fullgiltu Lissabon-sáttmálann á meðan leitað væri lausnar með Írum um hvernig bregðast skuli við höfnun þeirra á sáttmálanum. Garrigue og aðrir nefndarmenn spurðu út í virkni EES-samstarfsins og nýlegar skoðanakannanir um aðild að ESB á Íslandi. Íslandsdeildin kynnti aðkomu Íslands að Evrópusamstarfi með EES-samningnum og þátttöku í Schengen, og afstöðu stjórnmálaflokka til Evrópumála. Í umræðunum sem á eftir fylgdu var m.a. rætt um muninn á sjávarútvegsstefnu ESB og Íslands, orkumál og stöðu smáríkja innan stofnana ESB.
    Að sama skapi átti Íslandsdeild fund með Evrópunefnd tékkneska þingsins í Prag 26. nóvember en Tékkar tóku við formennsku í ESB 1. janúar 2009. Jozef Kochan, varaformaður nefndarinnar, gerði grein fyrir helstu áherslumálum í formennskuáætlun Tékka, svo sem fullgildingarferli Lissabon-sáttmála ESB, átaki í afnámi markaðshindrana á innri markaðnum og áframhaldandi starfi að loftslags- og orkumálum. Katrín Júlíusdóttir og Árni Þór Sigurðsson kynntu aðkomu Íslands að Evrópusamstarfi með EES-samningnum og þátttöku í Schengen og afstöðu stjórnmálaflokka til Evrópumála. Mikið var spurt af hálfu tékknesku þingmannanna út í fjármálakreppuna á Íslandi og möguleg áhrif hennar á viðhorf almennings til ESB- aðildar. Út frá því spunnust umræður um reynslu Tékka af því að ganga í ESB og þeim umbótum og breytingum sem aðildin hafði í för með sér.

5. Fundir þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu 2008.
    Starfsemi nefndanna var með hefðbundnum hætti á árinu 2008. Þingmannanefnd EFTA kom saman til fundar fjórum sinnum, þar af tvisvar í tengslum við fundi nefndarinnar með ráðherraráði EFTA og ráðgjafarnefnd EFTA, en í henni sitja fulltrúar aðila vinnumarkaðarins. Þá gengust þingmannanefnd og ráðgjafarnefnd EFTA fyrir ráðstefnu um loftslagsbreytingar en nefndirnar gangast fyrir sameiginlegum ráðstefnum annað hvert ár. Enn fremur áttu fulltrúar þingmannanefndar EFTA fundi með þingnefndum sem fara með utanríkis- og utanríkisviðskiptamál í indverska þinginu í samræmi við stefnu sína um að styðja við gerð fríverslunarsamninga EFTA. Loks áttu fulltrúar þingmannanefndar EFTA fundi með utanríkismálanefnd færeyska þingsins í því skyni að kynna sér óskir Færeyinga um aðild að EFTA.
    Þingmannanefnd EES kom tvisvar saman til fundar á árinu og fór fyrri fundurinn fram í Svartsengi. Fjórar skýrslur voru teknar til umfjöllunar á fundum þingmannanefndar EES og ályktanir samþykktar á grundvelli þeirra.
    Hér á eftir er gerð grein fyrir fundum þingmannanefnda EFTA og EES á starfsárinu í tímaröð.

89./57. fundur þingmannanefndar EFTA og 64. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA í Brussel 31. mars 2008.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundinn þau Katrín Júlíusdóttir, formaður, Illugi Gunnarsson og Arnbjörg Sveinsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Helstu mál á dagskrá nefndarinnar voru framtíð Evrópska efnahagssvæðisins, heilbrigðisþjónusta þvert á landamæri innan Evrópusambandsins og utanríkisviðskiptastefna Indlands og fríverslunarviðræður EFTA við landið. Helstu mál á dagskrá framkvæmdastjórnar þingmannanefndarinnar voru fyrirkomulag funda nefndarinnar með ráðherrum EFTA og samskipti nefndarinnar við færeyska þingið.
    Frummælandi við umræðu um framtíð EES var Michael Emerson frá hugveitunni Centre of European Policy Studies (CEPS). Emerson lagði út af vinnuskýrslu þingmannanefndar EES um framtíðarhorfur EES sem skýrsluhöfundarnir Katrín Júlíusdóttir og Diana Wallis lögðu fram í nóvember 2007. Emerson taldi afar ólíklegt að EES-samningurinn yrði uppfærður, gríðarlega flókið væri að taka samninginn upp og líkti hann því við að opna pandórubox, auk þess væri ekki pólitískur vilji fyrir því innan Evrópusambandsins.
    Emerson fjallaði um m.a. gjaldmiðlamál og kastaði fram þeirri hugmynd að lausn á vanda Íslendinga í því tilliti gæti falist í gjaldmiðlasamstarfi við Noreg. Illugi Gunnarsson greindi frá vaxandi umræðu á Íslandi um að taka upp annan gjaldmiðil en íslensku krónuna. Hann beindi þeirri spurningu til Emersons hvort evran yrði aðskilin frá hugmyndinni um hinn sameiginlega innri markað ESB/EES; fyrst evrunni væri ætlað að vera gjaldmiðill innri markaðarins, ætti hún þá ekki að standa öllum þátttakendum hans til boða, rétt eins og öll löggjöf innri markaðarins er innleidd af öllum aðildarríkjunum? Emerson samsinnti því og taldi að ósk um upptöku evru á þessum forsendum yrði að koma fram í samfloti allra EES/EFTA- ríkjanna ef af því yrði.
    Katrín Júlíusdóttir spurðist fyrir um áhrif Lissabon-sáttmála ESB og breytts jafnvægis á milli stofnana ESB á rekstur EES-samningsins, en aukið vald hefur færst til Evrópuþingsins frá framkvæmdastjórninni. EES/EFTA-ríkin hafa aðgang að vinnuhópum framkvæmdastjórnarinnar og geta á þann hátt haft áhrif á mótun löggjafar ESB. Því er ekki að skipta hjá Evrópuþinginu sem í auknum mæli gerir miklar breytingar á frumvörpum frá framkvæmdastjórninni. Emerson taldi breytt jafnvægi milli stofnana ESB ekki skipta miklu máli varðandi rekstur EES-samningsins og sagði sendiráð EES/EFTA-ríkjanna og fulltrúa atvinnulífsins öfluga hagsmunagæsluaðila í Brussel þegar kæmi að rekstri samningsins.
    Þá var rætt um heilbrigðisþjónustu þvert á landamæri innan ESB. Upphaflega var heilbrigðisþjónusta inni í drögum að þjónustutilskipun ESB en var síðan tekin út. Framkvæmdastjórn ESB var jafnframt beðin að vinna nýjar tillögur í þessu sambandi. Martin Dorazil frá deild heilbrigðis- og neytendamála (DG Sanco) í framkvæmdastjórninni kynnti tillögur sem eru í vinnslu og beinast að því að sjúklingar geti fengið heilbrigðisþjónustu sem næst heimili sínu óháð því hvort næsti spítali sé handan landamæra eða ekki. Einnig taka tillögurnar til heilbrigðisþjónustu þar sem sjúklingar verði færðir yfir landamæri ef um sjaldgæfa sjúkdóma er að ræða og sérþekking er ekki til í heimalandi sjúklings. Nú þegar eru í gildi reglur sem tryggja ESB-borgurum bráðaþjónustu ef þeir eru staddir í öðru aðildarríki en heimalandi sínu og verða þær óbreyttar. Því verður heldur ekki breytt að það er hlutverk stjórnvalda í hverju aðildarríki fyrir sig að skilgreina hvaða heilbrigðisþjónustu borgararnir eigi rétt á. Ekki er ljóst hvenær tillögurnar verða fullmótaðar og lagðar fram.
    Viðskiptastefna Indlands var því næst kynnt og fyrirhuguð ferð sendinefndar þingmannanefndar EFTA til Nýju-Delí undirbúin. Í janúar 2008 undirrituðu ráðherrar EFTA og Indlands samkomulag um að hefja formlegar viðræður um fríverslunarsamning ríkjanna eftir að hagkvæmnisathugun hafði leitt í ljós að slíkur samningur yrði samningsaðilum til hagsældar. Þingmannanefnd EFTA hefur stutt dyggilega við þá stefnu EFTA að byggja upp net fríverslunarsamninga og beitir nú þingmannaheimsóknum til að afla stuðnings þingmanna í viðræðuríkjum enda eru það oftast þjóðþingin sem á endanum þurfa að samþykkja slíka samninga. Prófessor Sherman Robinson frá Sussex-háskóla flutti fyrirlestur um viðskiptastefnu Indverja en hann er einn höfunda ítarlegrar skýrslu um það efni. Robinson taldi þróunarríki hafa almennt ágætan aðgang að mörkuðum ESB svo að boð um fríverslun þýddi yfirleitt að ríkin þyrftu að opna aðgang að mörkuðum sínum gegn óbreyttum eða lítið bættum aðgangi að markaði ESB. Samkvæmt sérstöku líkani þar sem mat var lagt á fríverslunarmöguleika Indlands kom í ljós að landið mundi ekki græða mikið á fríverslunarsamningum við ESB eða Bandaríkin en farsælla væri að ná niðurstöðu í Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO. Kåre Bryn, framkvæmdastjóri EFTA, greindi frá því að Indland ætti nú í viðræðum við marga aðila um fríverslun. Indland væri ekki einungis þungavigtarland í viðskiptalegu tilliti heldur væri landið mjög sterkt innan WTO þar sem Indland fer, ásamt Brasilíu, fyrir G20-hópnum svokallaða. Fríverslunarsamningur EFTA og Indlands mundi verða samningsaðilum hagkvæmur þar sem hár kaupmáttur almennings og fjárfestingargeta fyrirtækja í EFTA-ríkjunum færi saman við metnað Indverja um aukinn framleiðslu- og þjónustuútflutning auk þess að laða að erlenda fjárfestingu.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA hélt fund að loknum nefndarfundinum. Fyrra mál á dagskrá var fyrirkomulag funda þingmannanefndarinnar með ráðherrum EFTA sem fram fara tvisvar á ári, í lok júní og byrjun desember. EFTA-ráðherrarnir eiga yfirleitt fund með ráðgjafarnefnd EFTA, sem í eru fulltrúar vinnumarkaðarins, sama dag og fundað er með þingmannanefndinni. Ráðherrarnir hafa lýst vilja til þess að slá þessum fundum saman og þannig að þingmanna- og ráðgjafarnefndin hitti ráðherrana saman. Svissneska landsdeild þingmannanefndar EFTA lagði fram tillögu í þessa veru. Katrín Júlíusdóttir lagðist gegn henni og sagði ráðgjafarnefndina og þingmannanefndina tvo ólíka hópa, annars vegar væri um lýðræðislega kjörna fulltrúa að ræða og hins vegar fulltrúa hagsmunasamtaka. Hóparnir hefðu ólíka hagsmuni og eðli fundanna mundi breytast við sameiningu þeirra. Það væri nauðsynlegt fyrir kjörna fulltrúa EFTA-ríkjanna í þingmannanefndinni að eiga áfram eigin samráðsfundi með ráðherrunum og því ætti ekki að breyta. Fulltrúar Liechtenstein og Noregs tóku undir með Katrínu og var tillaga svissnesku þingmannanna felld. Síðara málið á dagskrá voru tengsl þingmannnanefndarinnar við Færeyjar. Færeyingar vilja gerast aðilar að EFTA en Sviss hefur ekki viljað ljá máls á stækkun samtakanna. Forseti færeyska þingsins hefur boðið þingmannanefnd EFTA til Færeyja til þess að kynna hugmyndir Færeyinga um aðild. Ákveðið var að kanna möguleika á slíkri heimsókn á síðari hluta árs 2008.

Fundir sendinefndar þingmannanefndar EFTA í Nýju-Delí 2.–5. apríl 2008.
    Dagana 2.–5. apríl var sendinefnd þingmannanefndar EFTA á Indlandi og átti fundi um fríverslun með þingnefndum indverska þingsins sem fara með utanríkis- og viðskiptamál, viðskiptaráðuneyti Indlands, viðskiptaráði og heildarsamtökum iðnaðarins. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA voru í sendinefndinni þau Katrín Júlíusdóttir, formaður, Bjarni Benediktsson og Árni Þór Sigurðsson, auk Stígs Stefánssonar, ritara.
    Fríverslunarsamningum hefur fjölgað ört á undanförnum árum. Með aukinni svartsýni á að árangur náist í Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) hafa fleiri samtök ríkja og einstök lönd beint sjónum sínum að gerð tvíhliða fríverslunarsamninga. EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði og eru gildir fríverslunarsamningar EFTA við ríki utan Evrópusambandsins nú 15 talsins. Engin ríkjasamtök hafa náð meiri árangri í gerð fríverslunarsamninga að Evrópusambandinu undanskildu. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna. Það hefur lengi verið rætt innan þingmannanefndarinnar að beita sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamninga EFTA. Fyrsta heimsókn þessarar tegundar var farin til Kanada í febrúar 2007 en þar áttu fulltrúar þingmannanefndarinnar fundi með þeim nefndum kanadíska þingsins sem fara með utanríkisviðskiptamál til að þrýsta á jákvæða niðurstöðu í samningaviðræðum EFTA og Kanada sem þá stóðu yfir.
    Forsaga heimsóknar sendinefndarinnar til Nýju-Delí er sú að á ráðherrafundi EFTA í Genf í desember 2006 var skrifað undir samkomulag við Indland um gerð hagkvæmnisathugunar á mögulegum fríverslunarsamningi milli EFTA og Indlands. Niðurstaða athugunarinnar leiddi í ljós að slíkur samningur yrði til hagsældar fyrir báða aðila og í framhaldi af því undirrituðu ráðherrar EFTA-ríkjanna og Indlands samkomulag í janúar um að hefja formlegar fríverslunarviðræður í náinni framtíð.
    Markmið heimsóknar sendinefndar EFTA-þingmanna til Nýju-Delí var að eiga viðræður um fríverslunar- og fjárfestingasamning ríkjanna, ræða ávinning slíks samnings við indverska þingmenn og almennt um stöðu Doha-samningalotu WTO og kynna sér viðskiptastefnu Indlands. Síðast en ekki síst var markmið heimsóknarinnar að halda á lofti jákvæðum niðurstöðum hagkvæmnisathugunar á fríverslun EFTA-ríkjanna og Indlands og þrýsta á að formlegar samningaviðræður gætu hafist sem fyrst.
    Í indverska þinginu áttu EFTA-þingmennirnir viðræður við tvær þingnefndir, utanríkismálanefnd og viðskiptanefnd. Norski þingmaðurinn Svein Roald Hansen, formaður þingmannanefndar EFTA, hélt framsöguræðu á báðum fundunum þar sem hann lagði áherslu á mikinn hagvöxt Indlands og lýsti efnahagskerfum EFTA-ríkjanna og hvernig hár kaupmáttur almennings og fjárfestingargeta fyrirtækja færi vel saman við metnað Indverja um aukinn framleiðslu- og þjónustuútflutning auk þess að laða að erlenda fjárfestingu. Hansen kynnti jafnframt fríverslunarstefnu EFTA, reifaði jákvæðar niðurstöður hagkvæmnisathugunar á fríverslunarsamningi við Indland og lagði áherslu á að því fyrr sem formlegar samningaviðræður gætu hafist, því betra. Indversku þingnefndirnar gerðu grein fyrir helstu verkefnum í efnahagsuppbyggingu landsins sem eru að tryggja að hagvöxturinn nái til þess yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar sem stundar landbúnað. Á Indlandi væru 350 milljónir manna undir fátæktarmörkum og það væri fyrsta skylda stjórnvalda í þessu fjölmennasta lýðræðisríki heims að tryggja að efnahagsuppgangurinn næði til þeirra. Jákvæðni gætti í garð frjálsra viðskipta en áhersla var lögð á að samningar um viðskiptafrelsi mættu ekki hafa þau áhrif í landbúnaði að þeir fælu í sér skerðingu á kjörum tekjulægri hópa. Lítið þyrfti út af að bregða, nú á tímum hækkandi matvælaverðs í heiminum, til þess að afkomuöryggi stórra hópa væri stefnt í hættu og aðrir hópar sem hefðu verið betur settir féllu aftur niður fyrir skilgreind fátæktarmörk. Á heildina litið virtust indversku viðmælendurnir, sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka landsins, vera sammála um gagnkvæman ávinning af fríverslunarsamningi milli Indlands og EFTA-ríkjanna.
    Á fundunum í indverska þinginu gafst einnig tækifæri til að ræða tvíhliða málefni einstakra EFTA-ríkja og Indlands. Katrín Júlíusdóttir þakkaði Indverjum sérstaklega fyrir stuðninginn við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og ítrekaði jafnframt að íslensk stjórnvöld styddu kröfu Indverja um fast sæti í ráðinu. Opnun sendiráðs Íslands í Nýju-Delí hefði markað þáttaskil í samskiptum ríkjanna og fagnaði Katrín þeirri ákvörðun indversku ríkisstjórnarinnar að opna sendiráð í Reykjavík sem þá var í bígerð. Miklir möguleikar væru á að auka samstarf ríkjanna m.a. á vísindasviðinu og ekki síst hvað varðar virkjun endurnýjanlegrar orku. Nú þegar væru slík verkefni í undirbúningi en Glitnir og indverska orkufyrirtækið LMJ Bhilwara áformuðu að reisa jarðvarmavirkjanir á Indlandi. Katrín lagði áherslu á að aukinn hlutur endurnýjanlegrar orku í orkunotkun væri mikilvægur þáttur í að bregðast við hnattrænum loftslagsbreytingum og þar með að tryggja sjálfbæra þróun sem væri lykill að því að draga úr fátækt og auka velferð.
    Þingmenn EFTA áttu þá fund með Gopal K. Pillai, ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytis Indlands. Á fundinum var farið vandlega yfir viðhorf Indverja til Doha-samningalotu WTO en Indland leiðir ásamt Brasilíu hinn svokallaða G20-hóp innan stofnunarinnar. Sá hópur hefur krafið ESB og Bandaríkin um að draga úr verndarstefnu í landbúnaði í yfirstandandi samningaviðræðum. Pillai benti á að erlendum fjárfestum á Indlandi hefði almennt vegnað vel og að arður af fjárfestingum í landinu væri meiri en í Kína. Kvaðst hann sjá mikla möguleika í fríverslun Indlands og EFTA-ríkjanna. Mikilvægust var hins vegar yfirlýsing Pillais um að Indverjar væru tilbúnir að hefja formlegar samningaviðræður við EFTA eftir tvo mánuði, eða í byrjun júní 2008.
    Þingmenn EFTA áttu auk þess fundi með fulltrúum viðskiptaráðs Indlands og samtökum iðnaðarins. Á þeim fundum var rætt um indversk efnahagsmál og fríverslun en bæði samtökin hafa verið með í ráðum í viðræðum Indlands og EFTA-ríkjanna hingað til. Á fundunum kom fram sterkur stuðningur við að formlegar samningaviðræður hæfust sem fyrst og áhersla yrði lögð á að ná niðurstöðu hratt og örugglega.

30. fundur þingmannanefndar EES í Svartsengi 29. apríl 2008.
    Sameiginleg þingmannanefnd EES kom saman til fundar á Íslandi 29. apríl og fór hann fram í Svartsengi. Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA var gestgjafi fundarins og af hálfu deildarinnar sóttu fundinn þau Katrín Júlíusdóttir, formaður, Bjarni Benediktsson, Árni Þór Sigurðsson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Ármann Kr. Ólafsson, auk Stígs Stefánssonar, ritara. Helstu mál á dagskrá voru þróun og framkvæmd EES-samningsins, heilbrigðisþjónusta á Evrópska efnahagssvæðinu og framtíðarhorfur EES.
    Að venju var embættismönnum boðið á fund nefndarinnar til umræðu um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Þeir voru m.a. Jozef Drofenik, fulltrúi Slóveníu sem fór með formennsku í ráðherraráði ESB, Elisabeth Walaas, fulltrúi formennskuríkis EFTA í EES-ráðinu, Matthias Brinkmann frá framkvæmdastjórn ESB, og Per Sanderud, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA. Í umræðum kom fram að rekstur EES-samningsins gengi vel eftir erfiðleika sem urðu árið 2007 við töfina á að Rúmenía og Búlgaría gerðust aðilar að EES. Töfin gerði það að verkum að engar nýjar gerðir voru teknar upp í EES-samninginn fyrstu fjóra mánuði ársins 2007. Á seinni hluta þess árs voru hins vegar margar stórar gerðir teknar upp í samninginn og var löggjöf um matvælaöryggi, viðskipti með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda og frjálsa för launafólks sérstaklega nefnd.
    Danski Evrópuþingmaðurinn Jens Peter Bonde, sem sat sinn síðasta fund þingmannanefndarinnar, sagði EES-samninginn úr sér genginn eftir Lissabon-sáttmála ESB. Á síðasta ári hefðu 80% lagasetningar ESB farið fram eftir samákvörðunarferli en þá gera Evrópuþingið og ráðherraráð oft miklar breytingar á tillögum framkvæmdastjórnar ESB. EES/EFTA- ríkin geta haft áhrif á mótun löggjafar með þátttöku í vinnuhópum framkvæmdastjórnarinnar en þau hafa enga möguleika til að hafa áhrif á breytingar á tillögum framkvæmdastjórnarinnar eftir að þær eru komnar til Evrópuþingsins og ráðherranna. Bonde sagði EES/EFTA-ríkin búa við tvöfaldan lýðræðishalla hvað áhrif á ESB-löggjöf varðar og hvatti til þess að ríkin efldu samskipti sín við Evrópuþingið, t.d. með því að þingmenn ríkjanna tækju þátt í starfsemi flokkahópanna á Evrópuþinginu sem áheyrnaraðilar og kæmu sjónarmiðum sínum þar á framfæri. Bjarni Benediktsson sagði gagnlegt að heyra frá Evrópuþingmönnum hvernig haga mætti auknu samstarfi við Evrópuþingið og sagði ýmis áform uppi á Alþingi um að auka Evrópustarf þingmanna. Til dæmis væri rætt um að Alþingi yrði með fastan starfsmann í Brussel m.a. til að efla samstarf við Evrópuþingið.
    Nokkur umræða spannst um Íbúðalánasjóð en Eftirlitsstofnun EFTA hefur haft kæru til skoðunar um starfsemi hans. Bjarni Benediktsson spurðist fyrir um gang málsins. Árni Þór Sigurðsson sagði sjóðinn njóta mikils stuðnings landsmanna þó að viðskiptabankarnir litu hann hornauga af samkeppnisástæðum. Sjóðurinn væri mikilvægur nú á tímum lánsfjárkreppu í fjármálaheiminum og væri veigamikill hlekkur íslenska velferðarkerfisins. Sanderud, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA, sagði vandamál Íbúðalánasjóðs felast í því að erfitt væri að greina á milli félagslegs og viðskiptalegs hlutverks sjóðsins því að allir ættu rétt á niðurgreiddu húsnæðisláni úr sjóðnum óháð félagslegri stöðu.
    Í framhaldi af almennri umræðu um framkvæmd og rekstur EES-samningsins var ársskýrsla þingmannanefndar EES um þetta málefni tekin til afgreiðslu. Nokkur umræða spannst um áframhaldandi þróunarstyrki EES/EFTA-ríkjanna til fátækra landa ESB eftir að núverandi styrkjafyrirkomulag fellur úr gildi árið 2009. Skýrt kom fram að ráðherraráð og framkvæmdastjórn ESB vænta áframhaldandi framlaga til þess að draga úr félagslegum ójöfnuði innan EES. EES/EFTA-ríkin leggja hins vegar áherslu á að þeim beri engin lagaleg skylda til slíkra framlaga samkvæmt EES-samningnum en þau hafa lýst sig reiðubúin til viðræðna við framkvæmdastjórn ESB um málið.
    Þá var kynnt skýrsla um heilbrigðisþjónustu þvert á landamæri innan EES. Skýrsluhöfundar voru norski þingmaðurinn Svein Roald Hansen og Evrópuþingmaðurinn Paul Rübig. Í drögum að ályktun skýrslunnar var m.a. lögð áhersla á að aukið flæði heilbrigðisþjónustu yfir landamæri mætti ekki koma niður á viðbúnaði eða gæðum heilbrigðisþjónustu einstakra ríkja. Tryggja þyrfti heilbrigðisþjónustu í dreifbýli og að aukinn hreyfanleiki sjúklinga yfir landamæri mætti ekki leiða ójafnaðar þegar kemur að aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Áhersla var lögð á að skipulag og fjármögnun heilbrigðisþjónustu væri á ábyrgð einstakra ríkja EES en jafnframt var hvatt til samræmingar á þessu sviði. Einnig var hvatt til þess að komið yrði á sameiginlegum gæðastöðlum innan ESB fyrir heilsugæslu og að notendur hennar hefðu aðgang að hlutlausum upplýsingum um gæði þjónustunnar innan einstakra ríkja. Að síðustu var undirstrikað að samkeppni og auknir valmöguleikar fyrir notendur heilbrigðisþjónustu gætu leitt til aukinna gæða hennar og styrkt réttindi notenda. Árni Þór Sigurðsson lagði til að afgreiðslu skýrslunnar yrði frestað til næsta fundar þingmannanefndarinnar. Árni Þór sagði málið flókið og snúa beint að velferð íbúa EES. Það væri ekki gott vinnulag að afgreiða með hraði skýrslu um margslungið efni sem dreift væri með litlum fyrirvara. Hansen lagði hins vegar áherslu á að ályktunin yrði afgreidd því að mikilvægt væri að viðhorf þingmannanefndarinnar kæmust á borð framkvæmdastjórnar ESB sem ynni að tillögum um þessi mál, annars væri hætt við að sjónarmið þingmanna kæmu fram of seint. Katrín Júlíusdóttir var sammála Hansen og lýsti stuðningi við ályktunardrögin. Kosið var um hvort afgreiða ætti skýrsluna og ályktunina og var það samþykkt en Árni Þór sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Bjarni Benediktsson lagði þá fram fjórar orðalagsbreytingar á ályktuninni og voru þær allar samþykktar. Því næst var ályktunin samþykkt í heild.
    Að síðustu var fjallað um drög að tilmælum sem unnin voru á grunni vinnuskýrslu þingmannanefndarinnar um framtíðarhorfur EES sem upphaflega var lögð fram á fundi nefndarinnar í nóvember 2007. Katrín Júlíusdóttir, sem er annar tveggja skýrsluhöfunda, rifjaði upp helstu niðurstöður skýrslunnar sem eru að þær umfangsmiklu breytingar sem orðið hafa á Evrópusambandinu á umliðnum árum hafa haft neikvæð áhrif á framkvæmd EES-samningsins. Í fyrsta lagi væru skil milli innri markaðar og annarra sviða í tilskipunum ESB orðin óljósari og því erfiðara að skilgreina hvaða tilskipanir á að taka upp í EES-samninginn og innleiða í EES/EFTA-ríkjunum. Í öðru lagi hafa breytingar á innra skipulagi ESB haft í för með sér að áhrif Íslands og annarra EES/EFTA-ríkja á lagasetningu sambandsins, sem síðar er tekin upp í EES-samninginn, hafa minnkað. EES/EFTA-ríkin hafa aðgang að vinnuhópum framkvæmdastjórnar ESB sem vinna drög að tilskipunum sambandsins. Áhrif ráðherraráðsins og Evrópuþingsins á löggjöf hafa aukist verulega á kostnað framkvæmdastjórnarinnar. Drög að tilskipunum taka oft miklum breytingum frá því að þau fara frá framkvæmdastjórninni og þar til þau eru samþykkt af ráðherraráði og Evrópuþinginu án þess að EFTA-ríkin eigi þar formlega aðkomu og áhrif. Þá kynnti Katrín drög að tilmælum til frekari vinnslu á vinnuskýrslunni. Í fyrsta lagi voru tilmæli til þjóðþinga EES/EFTA-ríkjanna þar sem þau eru beðin að gera grein fyrir tilhögun EES-vinnu í þingunum í ljósi breytinga á ESB. Í öðru lagi var fyrirspurn til Evrópuþingsins um hvort styrkari staða þjóðþinga ESB, sem kveðið er á um í Lissabon-sáttmálanum, geti einnig tekið til þjóðþinga EES/EFTA-ríkjanna í málum sem varða innri markaðinn og þar með EES-samstarfið. Í þriðja lagi var sambærileg fyrirspurn til EES/EFTA-ríkjanna um túlkun þeirra á Lissabon-sáttmálanum. Í fjórða lagi var fyrirspurn til framkvæmdastjórnar ESB um hvort drög að tilskipunum sem senda á til umsagnar og samráðs til þjóðþinga ESB-ríkjanna samkvæmt Lissabon-sáttmálanum verði einnig send þjóðþingum EES/EFTA-ríkjanna. Að síðustu voru tilmæli til EFTA-ríkjanna um að gera úttekt á áhrifum Lissabon-sáttmálans á framkvæmd EES-samningsins. Tilmælin voru samþykkt og ákveðið að nota væntanleg svör til frekari vinnslu vinnuskýrslunnar á nóvemberfundi nefndarinnar.

Fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA auk tengdra funda í Lúganó 30. júní 2008.
    Auk sameiginlegs fundar þingmanna og ráðherra EFTA fóru eftirfarandi fundir fram í Lúganó: Fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA, fundur þingmannanefndar EFTA og sameiginlegur fundur þingmannanefndar og ráðgjafarnefndar EFTA. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina þau Katrín Júlíusdóttir, formaður, Árni Þór Sigurðsson, Illugi Gunnarsson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Ármann Kr. Ólafsson, auk Stígs Stefánssonar, ritara.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA gáfu Ásta Magnúsdóttir og Gunnar Selvik frá skrifstofu EFTA munnlegar skýrslur um stöðu helstu mála í EES-samstarfinu og ræddu m.a. um þjónustutilskipunina, matvælalöggjöfina og væntanlega heilsutilskipun. Ásta gerði grein fyrir löggjafarferli ESB og hvernig EFTA getur haft áhrif á mótun löggjafar með þátttöku í sérfræðingahópum framkvæmdastjórnar ESB. Aðspurð af hverju EES/EFTA-ríkin nýta rétt sinn til að senda inn formlegar umsagnir við mótun löggjafar eins sjaldan og raun ber vitni svaraði Ásta því til að ferillinn væri þungur í vöfum og oft væri erfitt að ná nákvæmu samkomulagi milli EES/EFTA-ríkjanna sjálfra um slíkar umsagnir.
    Á sameiginlegum fundi þingmannanefndar og ráðgjafarnefndar EFTA var helsta dagskrármálið samband viðskipta og þróunaraðstoðar. Dr. Christian Häberli frá Rannsóknarstofnun á sviði alþjóðaviðskipta (World Trade Institute) flutti framsögu og lagði áherslu á að þróunaraðstoð geti greitt fyrir viðskiptum. Markmiðið væri að aðstoðin hjálpaði þróunarríkjum að byggja upp þá getu og samfélagsinnviði sem þarf til að taka þátt í og njóta alþjóðlegra viðskipta. Slík aðstoð væri einkum gagnleg á fjórum meginsviðum: Tæknileg aðstoð við mótun viðskiptastefnu, hjálp við uppbyggingu innviða samfélagsins eins og samgangna og fjarskipta, uppbygging framleiðslugetu og aðstoð til að bregðast við breytingum eins og tollalækkunum o.fl. sem koma niður á samkeppnishæfni í afmörkuðum geirum.
    Á sameiginlegum fundi þingmannanefndar og ráðherra EFTA var annars vegar fjallað um þróun í samstarfi EFTA við þriðju ríki og gerð fríverslunarsamninga og hins vegar um þróun EES, en þetta eru fastir dagskrárliðir á fundum þingmanna og ráðherra EFTA. Doris Leuthard, efnahagsráðherra Sviss, flutti framsögu um fríverslunarsamningagerð EFTA. Helstu tíðindi af því sviði voru að fríverslunarsamningur EFTA og tollabandalags Suður-Afríkuríkja, SACU, tók gildi 1. maí 2008, og vonast var til að fríverslunarsamingur við Kanada gæti tekið gildi í upphafi árs 2009. Viðræðum um fríverslunarsamninga við Kólumbíu og Samstarfsráð Persaflóaríkja var nýlokið og vonast var til að þeir samningar yrðu undirritaðir í náinni framtíð. Þá væri stefnt að fyrstu lotu samningaviðræðna EFTA og Indlands í haustið 2008. Loks væru fríverslunarviðræður við Rússland, Úkraínu, Serbíu og Albaníu í undirbúningi en hagkvæmnisathugun á mögulegum samningi við Rússa yrði lokið haustið 2008.
    Norski þingmaðurinn Svein Roald Hansen, formaður þingmannanefndar EFTA, ítrekaði stuðning þingmanna við uppbyggingu fríverslunarnets EFTA þar sem hvorki gengi né ræki með Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Nefndi Hansen sérstaklega vel heppnaðar heimsóknir þingmanna til Kanada og Indlands til að vinna fríverslunarsamningum fylgi.
    Illugi Gunnarsson spurðist fyrir um hvort til stæði að gera fríverslunarsamning við Kósóvó. EFTA-ríkin hefðu öll viðurkennt sjálfstæði landsins, það hefði 21 af 26 aðildarríkjum NATO einnig gert og 20 af 27 ríkjum Evrópusambandsins. Illugi vísaði til þess að árið 1998 hefði EFTA gert fríverslunarsamning við heimastjórn Palestínumanna sem í fólst fyrst og fremst pólitískur stuðningur enda viðskipti lítil. Í framhaldi af því spurði Illugi hvort ráðherrarnir hefðu rætt möguleika á svipuðum stuðningi við hið nýsjálfstæða ríki Kósóvó. Leuthard svaraði því til að of snemmt væri að leggja í slíka samningagerð við Kósóvó. Málið hefði ekki verið rætt í ráðherrahópnum en hún teldi að samningur við Kósóvó gæti truflað samskipti EFTA við Serbíu og það væru ekki hagsmunir EFTA að leggja í slíka samninga við Kósóvó á næsta ári.
    Í umræðum ráðherra og þingmanna um þróun EES hélt Svein Roald Hansen framsögu og fór m.a. nokkrum orðum um stór mál sem að undanförnu hafa verið innleidd í EES-samninginn, svo sem matvælalöggjöfina, viðskiptakerfi með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda, frjálsa för borgara ESB og fjölskyldna þeirra innan EES og reglugerð um efni og efnavörur. Í umræðum á eftir spurðist Katrín Júlíusdóttir fyrir um hvað liði innleiðingu nýrra geira í viðskiptakerfi með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda en tillögur eru uppi um að alþjóðlegar samgöngur falli undir kerfið. Katrín vísaði í ályktun sameiginlegrar þingmannanefndar EES frá nóvember 2007 um að tillit skyldi tekið til jaðarsvæða, sem af landfræðilegum ástæðum væru sérlega háð flugsamgöngum, þegar flugið yrði sett inn í kerfið og spurði hvort mótuð hefði verið sameiginleg stefna EFTA um að hafa áhrif á mótun viðskiptakerfisins að þessu leyti. Þá ræddi Katrín neytendamál og spurðist fyrir um hvort EFTA-ríkin hygðust taka þátt í samræmdri neyslumálakönnun ESB (Consumer Market Scoreboard) og hvort slíkt gæti mögulega verið verkefni fyrir Eftirlitsstofnun EFTA, ESA. Per Sanderud, forseti ESA, sagði sameiginlegu neyslumálakönnunina ólíka öðrum verkefnum ESA og var efins um að hún ætti heima hjá stofnuninni. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði afar mikilvægt fyrir Íslendinga hvernig staðið yrði að innleiðingu flugsamgangna í viðskiptakerfi með losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta mál hefði ekki verið rætt í ráðherrahópnum og æskilegt væri að EFTA kæmi sér upp sameiginlegri stefnu um það.
    Árni Þór Sigurðsson spurði ráðherrana af hverju ekki væri búið að formbinda aðkomu EFTA að nýrri jafnréttisstofnun ESB (European Institute of Gender Equality) og sagði að varðandi jafnréttismál hefðu norræn lönd eins og Ísland og Noregur mikið fram að færa enda væru þau komin lengra í jafnréttismálum en flest önnur ríki Evrópu. Árni Þór ræddi einnig um loftslagsbreytingar og hvernig tryggt yrði að ákvörðunum leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, sem ráðgerður er í Kaupmannahöfn í desember 2009, verði framfylgt innan EES. Þá spurði Árni Þór út í skoðun Eftirlitsstofnunar EFTA á starfsemi Íbúðalánasjóðs og sagði sjóðinn einn af hornsteinum íslenska velferðarkerfisins sem viðskiptabankarnir vildu losna við. Hvaða stefnubreytingar þyrfti að gera til að ná sátt um framtíð sjóðsins? Per Sanderud svaraði því til að Íbúðalánasjóður væri í raun niðurgreiddur banki og það skekkti samkeppnisstöðu á fjármálamarkaði, allir ættu rétt á niðurgreiddu húsnæðisláni úr sjóðnum óháð félagslegri stöðu. Annelene Svingen, aðstoðarráðherra viðskipta- og iðnaðarmála í Noregi, sagði vandamálið varðandi jafnréttisstofnunina vera að sæti í stjórn væru einungis 18 svo að aðildarríki ESB fengju ekki einu sinni öll fulltrúa í stjórn. Því hefði verið á brattann að sækja fyrir EFTA að fá stjórnarmann. Þátttaka EFTA-ríkjanna í starfi stofnunarinnar væri í skoðun.

Sameiginleg ráðstefna þingmannanefndar og ráðgjafarnefndar EFTA í Bergen 13.–14. október.
    Þingmannanefnd og ráðgjafarnefnd EFTA gangast fyrir sameiginlegri ráðstefnu annað hvert ár. Að þessu sinni fór ráðstefnan fram í Bergen og fjallaði um loftslagsbreytingar. Að lokinni ráðstefnunni hélt framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA til Færeyja til fundar við utanríkismálanefnd Lögþingsins og utanríkisráðherra landsins. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu ráðstefnuna í Bergen þeir Árni Þór Sigurðsson og Ármann Kr. Ólafsson, auk Stígs Stefánssonar, ritara.
    Sameiginleg ráðstefna þingmannanefndar og ráðgjafarnefndar EFTA bar yfirskriftina „Frá Balí til Kaupmannahafnar: Þróun aðgerða gegn loftslagsbreytingum í hnattrænu hagkerfi.“ Í yfirskriftinni er vísað til leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem ráðgerður er í Kaupmannahöfn í desember 2009. Á leiðtogafundinum er búist við að gert verði samkomulag um aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum, einkum með takmörkunum á losun gróðurhúsalofttegunda, eftir að Kyoto-bókunin fellur úr gildi árið 2012.
    Á ráðstefnunni voru fluttir fyrirlestrar um hvernig auka mætti hlut grænnar orku í orkubúskap. Liv Monica Bargem Stubholt, aðstoðarráðherra olíu- og orkumála í Noregi, taldi í fyrsta lagi að bæta þyrfti núverandi orkunýtingu og í öðru lagi bæri að þróa nýjar tegundir endurnýjanlegrar orku og þar taldi Stubholt samvinnu ríkisins og einkaaðila nauðsynlega. Þá greindi Stubholt frá tilraunaverkefnum Norðmanna um bindingu koltvísýrings í jarðvegi en Noregur er í fararbroddi á heimsvísu í þróun þeirrar tækni. Thomas L. Brewer frá Georgetown-háskóla sagði í erindi sínu loftslags- og viðskiptamál æ tengdari í alþjóðlegri umræðu. Sem dæmi væru tillögur um niðurfellingu tolla og annarra hindrana gegn viðskiptum, fjárfestingum og yfirfærslu tæknikunnáttu á sviði loftslagsvænnar vöru og þjónustu. Slík samtvinnun viðskipta og loftslagsmála væri forsenda árangurs í baráttu gegn loftslagsbreytingum.
    Nokkuð var rætt um viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda (Emission trading scheme, ETS). Thomas L. Brewer taldi ýmislegt benda til þess að kerfið gæti haft hnattræna þýðingu enda væri það einstakt. Í fyrsta lagi væri mögulegt að ríkjahópar tækju sig saman og kæmu á svipuðum kerfum að evrópskri fyrirmynd. Í öðru lagi mundi kerfið ná langt út fyrir Evrópu þegar allt flug í Evrópu, jafnt innan álfunnar sem utan, yrði fellt undir það. Það felur í sér að flugfélög utan Evrópu sem halda uppi áætlunarflugi til áfangastaða í álfunni verða að greiða fyrir losunarkvóta vegna losunar á koltvísýringi.
    Guðlaugur Stefánsson, fulltrúi Samtaka atvinnulífsins í ráðgjafarnefnd EFTA, tók til máls um yfirstandandi efnahagsþrengingar á Íslandi og deildi m.a. hart á þá framkomu Breta við Íslendinga að beita hryðjuverkalögum til að frysta íslenskar eigur í Bretlandi. Breski Evrópuþingmaðurinn Chris Davies sagði að stjórnvöld innan ESB hefðu ekki sýnt nauðsynlega samstöðu í viðræðum um björgunaraðgerðir vegna hinnar hnattrænu fjármálakreppu. Hann minntist sérstaklega á Ísland og sagði óskiljanlegt að Íslendingar væru neyddir til að leita á náðir Rússa um hjálp í stað þess að fá aðstoð frá evrópskum vinaþjóðum.
    Árni Þór Sigurðsson tók til máls í almennum umræðum í ráðstefnulok. Hann sagði áhyggjuefni að yfirstandandi fjármagnskreppa gæti leitt til þess að sæst yrði á metnaðarminni markmið um losun gróðurhúsalofttegunda á leiðtogafundinum í Kaupmannahöfn en ella hefði verið. Þrengingar í efnahagsmálum mættu ekki verða til þess að menn veittu afslátt á umhverfisstefnu enda væri heilbrigt umhverfi forsenda almennrar hagsældar ekki síður en heilbrigt hagkerfi.

Fundir framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA í Færeyjum 15. október 2008.
    Að lokinni sameiginlegri ráðstefnu þingmannanefndar og ráðgjafarnefndar EFTA í Bergen hélt framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar til Færeyja til fundar við utanríkismálanefnd færeyska þingsins og utanríkisráðherra landsins. Tilefni fundanna eru óskir Færeyinga um aðild að EFTA en heimastjórnin í Færeyjum hefur frá því í apríl 2005 ítrekað lýst áhuga á EFTA-aðild. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Árni Þór Sigurðsson og Jón Gunnarsson, auk Stígs Stefánssonar, ritara.
    Á fundinum með utanríkismálanefnd Lögþingsins kom fram í máli John Johannessen, formanns nefndarinnar, að þverpólitísk samstaða væri í Færeyjum um aðildarumsókn til EFTA. Í máli nefndarmanna kom fram að Færeyingar sæju aðild að EFTA fyrst og fremst sem tæki til þess að liðka fyrir uppbyggingu nýrra atvinnugreina á Færeyjum. Eyjarnar væru of háðar sjávarútvegi og fjölbreyttara atvinnulíf væri Færeyingum nauðsynlegt. Ekki yrði haldið í nýjar kynslóðir sem hafa sótt menntun til Danmerkur og víðar ef ekki væru sköpuð atvinnutækifæri við þeirra hæfi í Færeyjum. Aðild að EFTA mundi greiða fyrir uppbyggingu á sviði hátækni í Færeyjum. Auk þess væru Færeyingar vongóðir um að verða olíuframleiðsluríki í náinni framtíð. Aðild að EFTA mundi styrkja markaðsstöðu þeirra á því sviði auk þess sem væntanleg olíuframleiðsla gæti styrkt EFTA í samningaviðræðum við þriðju ríki.
    Færeysku þingmennirnir lögðu áherslu á að EFTA-aðild væri ekki hugsuð til þess að bæta markaðsaðgang fyrir sjávarútveginn og að við endurskoðun eða gerð nýrra fríverslunarsamninga EFTA mundu Færeyingar ekki gera kröfur á sviði sjávarútvegs sem gengju lengra en þær sem Íslendingar eða Norðmenn settu fram. Færeyingar mundu í fríverslunarviðræðum EFTA við þriðju ríki ekki setja fram íþyngjandi kröfur á sviði sjávarútvegs sem gætu flækt eða staðið í vegi fyrir samningum umfram það sem Ísland og Noregur gerðu.
    Aðspurðir af hverju Færeyingar gengju ekki í Evrópusambandið, en slíkt ætti að vera auðsótt í gegnum aðildina að danska ríkjasambandinu, svöruðu John Johannessen og Högni Høydal því til að miðað við sjávarútvegsstefnu ESB og þýðingu sjávarútvegsins í þjóðarbúskap Færeyinga væri slíkt óhugsandi. Þá mundi aðild að ESB í gegnum Danmörku flækja samband landanna tveggja. Högni taldi að slík aðild hefði tvöfaldan lýðræðishalla í för með sér fyrir Færeyjar sem yrðu jaðarsvæði jafnt gagnvart Danmörku og Evrópusambandinu. Þá sagði Högni að vilji Færeyinga til þess að taka á sig aukna ábyrgð í alþjóðlegu samstarfi væri skref í átt til aukins sjálfstæðis sem þverpólitísk samstaða væri um. Stofnun embættis utanríkisráðherra og uppbyggingu utanríkisþjónustu bæri að skoða í því ljósi, svo og samkomulag við Dani sem gerir Færeyingum kleift að gera alþjóðasamninga og gerast aðilar að alþjóðastofnunum á afmörkuðum sviðum. Auk þess að sækja um aðild að EFTA hafa Færeyingar sótt um sjálfstæða aðild að Norðurlandaráði. Högni sagði að lokum að aðildarumsókn að EFTA snerist bæði um efnahagsmál og sjálfstæðismál Færeyja enda væri skýr tenging þar á milli.
    Jón Gunnarsson tók til máls og sagði rök Færeyinga gegn ESB-aðild vegna sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar enduróma þau rök sem heyrast í íslenskri Evrópuumræðu. Hann sagði að fjórfrelsið í EES-samningnum hefði á margan hátt dugað landi og þjóð vel í efnahagslegri uppbyggingu en nýverið hefðum við Íslendingar lært harða lexíu sem kæmi til vegna falls íslenska bankakerfisins. Árni Þór Sigurðsson sagði Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA styðja Færeyinga og að hún mundi tala máli þeirra við íslenska utanríkisráðherrann og á komandi fundi þingmanna og ráðherra EFTA.
    Í lok fundar lagði utanríkismálanefndin til að Lögþingið fengi áheyrnaraðild að þingmannanefnd EFTA, slíkt mundi efla samskipti á vettvangi þingmanna og væri mikilvægt fyrsta skref í átt að aðild að EFTA. Svein Roald Hansen, formaður þingmannanefndar EFTA, bað utanríkismálanefndina að rita þingmannanefndinni bréf um málið og sagði að tillagan yrði skoðuð í samráði við EFTA-ráðherrana.
    Á hádegisverðarfundi með Jørgen Niclasen, utanríkisráðherra Færeyja, hélt ráðherrann í aðalatriðum fram sömu röksemdum og utanríkismálanefndin. Vilji Færeyja til þess að verða aðilar að EFTA snerist um uppbyggingu fjölbreyttara atvinnulífs þar sem Færeyingar yrðu ekki eins háðir sjávarútvegi og aflasveiflum um afkomu sína.

91./59. fundur þingmannanefndar EFTA og 31. fundur þingmannanefndar EES í Brussel 3.–4. nóvember 2008.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundina þau Katrín Júlíusdóttir, formaður, Bjarni Benediktsson, Árni Þór Sigurðsson, Illugi Gunnarsson og Ármann Kr. Ólafsson, auk Stígs Stefánssonar, ritara.
    Helsta málið á dagskrá fundar þingmannanefndar EFTA var framtíð þróunarsjóðs EFTA sem stofnaður var árið 2004 við austurstækkun ESB. Sjóðurinn veitir styrki til nýju aðildarríkja ESB auk Grikklands, Portúgals og Spánar. Við inngöngu Búlgaríu og Rúmeníu í ESB árið 2007 ollu deilur EES/EFTA-ríkjanna og framkvæmdastjórnar ESB um aukna þróunarstyrki töf á stækkun EES og truflun á framkvæmd EES-samningsins. EES/EFTA-ríkin hafa alla tíð lagt áherslu á að í EES-samningnum felist engar skuldbindingar um styrki til fátækari ríkja ESB en þeim hafi verið komið á til að stuðla að jöfnuði innan EES. Georges Baur, sendifulltrúi Liechtenstein sem fer með formennsku í EFTA-ráðinu, greindi frá því að í september 2008 hefðu hafist samningaviðræður EES/EFTA-ríkjanna og framkvæmdastjórnar ESB um áframhaldandi styrki eftir að samkomulag um núverandi þróunarsjóð rennur út í apríl 2009. Framkvæmdastjórnin gerir kröfur um umtalsverða hækkun styrkjanna. Árni Þór Sigurðsson benti á að vegna yfirstandandi efnahagsþrenginga á Íslandi væru uppi spár um 10–15% samdrátt þjóðarframleiðslu á árinu 2009 og spurði hvort gert væri ráð fyrir þessu í samningaviðræðunum. Baur sagði fastanefnd Íslands hafa gert grein fyrir þessari stöðu og að skilningur væri á íslenskum aðstæðum í framkvæmdastjórninni.
    Að beiðni Íslandsdeildar var fjármálakreppan á Íslandi tekin á dagskrá á fundi sameiginlegrar þingmannanefndar EES. Katrín Júlíusdóttir flutti framsögu þar sem hún setti íslenska bankahrunið í alþjóðlegt samhengi og skýrði hvernig fjármálakerfið hefði á nokkrum árum vaxið upp í að vera margföld þjóðarframleiðsla Íslands og hvernig sú stærð varð til þess að Seðlabankinn gat ekki stutt við bankakerfið þegar lánaþurrð skall á. Katrín greindi frá afleiðingum hrunsins innan lands með vaxandi atvinnuleysi, tapi á sparnaði almennings í hlutabréfum og sjóðum bankanna, hrapi krónunnar og alvarlegum truflunum á gjaldeyrismarkaði og þar með viðskiptum við umheiminn. Ljóst væri að almenningur í ýmsum Evrópuríkjum hefði tapað sparnaði sínum í íslensku bönkunum og íslensk stjórnvöld hefðu í því sambandi marglýst því yfir að þau mundu standa við lagalegar skuldbindingar sínar. Stjórnvöld ættu í vinsamlegu samstarfi við flest ríki um lausn þessara mála nema Bretland sem beitt hefði Íslendinga hryðjuverkalögum og valdið með því gríðarlegum efnahagslegum skaða, m.a. með því að knésetja Kaupþing, stærsta fyrirtæki landsins.
    Natasha Butler, fulltrúi ráðherraráðs ESB, og Alan Seattler, fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB, greindu frá viðbrögðum Evrópusambandsins við efnahagsvanda Íslendinga. Á fundi ráðherraráðsins 16. október hefði í yfirlýsingu fundarins sérstaklega verið lýst yfir samstöðu með Íslendingum en jafnframt lögð áhersla á að þeir stæðu við skuldbindingar sínar í EES- samningnum. José Barroso, forseti framkvæmdastjórnarinnar, hefði hringt í Geir H. Haarde forsætisráðherra og framkvæmdastjórnin styddi málaleitan Íslendinga um lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Framkvæmdastjórnin stýrir neyðarsjóði ESB en til greina kæmi að Íslendingar gætu fengið lán úr sjóðnum í kjölfar jákvæðrar afgreiðslu stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Butler greindi frá því að á októberfundi fjármálaráðherra ESB hefðu komið fram áhyggjur af því að Íslendingar gerðu upp á milli innlendra og erlendra innstæðueigenda í íslensku bönkunum og að þeir innlendu fengju aukna tryggingu og vernd innstæðna sinna á kostnað erlendra aðila. Sum aðildarríkin hefðu íhugað að tengja atkvæði sín í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins því að niðurstaða næðist í deilum við Íslendinga. Seattler bætti því við að hugsanleg lánafyrirgreiðsla úr neyðarsjóði ESB væri háð því að lausn fyndist á deilumálum Íslendinga við einstök ESB-ríki.
    Árni Þór Sigurðsson sagði tengingu lánafyrirgreiðslu við lausn deilumála við einstök ESB- ríki ekkert annað en fjárkúgun sem ekki væri sæmandi í alþjóðlegum samskiptum. Harkalegar aðfarir Breta gagnvart Íslendingum væru tæplega í anda EES-samningsins. Þá sagði Árni Þór bankahrunið í raun gjaldþrot þeirrar nýfrjálshyggju sem íslensk stjórnvöld hafi haft að leiðarljósi undanfarin ár. Hrunið væri ekki einungis afleiðing alþjóðlegrar fjármálakreppu heldur stæðu röð hagstjórnarmistaka að baki, m.a. stóriðjuframkvæmdir sem hefðu valdið ofþenslu sem mætt hefði verið með of háu vaxtastigi. Þá sagðist Árni Þór hafa áhyggjur af skilyrðum samkomulags við IMF, sem enn væri leyndarmál, í ljósi þess hve sjóðnum hefði tekist illa til í þeim ríkjum þar sem hann hefur komið að kreppustjórnun.
    Per Sanderud, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, sagði stofnunina fylgjast grannt með gangi mála á Íslandi enda væri hlutverk stofnunarinnar að tryggja að EES/EFTA-ríkin færu að EES-samningnum. Sanderud sagði að aðferð íslenskra stjórnvalda við að aðskilja innlenda starfsemi íslensku bankanna annarri starfsemi þeirra og stofna nýjan Landsbanka, Glitni og Kaupþing ylli áhyggjum. Mikilvægt væri að reisa íslenska fjármálakerfið við en það mætti ekki brjóta gegn reglum um ríkisstyrki auk þess sem í skoðun væri hjá ESA hvort mismunun innlendra og erlendra innstæðueigenda stæðist EES-samninginn.
    Bjarni Benediktsson sagði að lögfræðilega væri skýr munur á skuldum lögaðila annars vegar og skuldum ríkisins hins vegar. Aðgerðir íslenskra stjórnvalda miðuðu að því að koma í veg fyrir að skuldir lögaðila, þ.e. íslensku einkabankanna, féllu á ríkið. Menn tækju athugasemdir um mismunun innstæðueigenda alvarlega en því miður væri lagaleg óvissa hvað þetta varðaði og einnig um lög um tryggingasjóði innstæðueigenda innan EES. Íslenska ríkið hefði margítrekað að það mundi standa við lagalegar skuldbindingar sínar en deilt væri um hversu víðtækar þær skuldbindingar væru.
    Evrópuþingmennirnir Wolf Klinz og Mieczyslaw Janowski spurðu m.a. út í hraðan vöxt íslensku bankanna og hvort eftirlitsaðilar hefðu brugðist. Illugi Gunnarsson svaraði því til að vissulega hefðu íslensku bankarnir farið of geyst og eftirlitsaðilar ekki brugðist nógu snemma við viðvörunarljósum. Þó bæri að hafa í huga að þetta væri sameiginlegur vandi fjármálaeftirlita á Vesturlöndum, þau sáu fjármálakreppuna ekki fyrir og því urðu ríkisstjórnir og seðlabankar að grípa til róttækra björgunaraðgerða þar sem því var við komið en því miður hafði íslenska ríkið ekki bolmagn til að styðja bankakerfið vegna stærðar þess.
    Í ræðu við hádegisverð þingmannanefndarinnar lýsti Diana Wallis, varaforseti Evrópuþingsins, sig andvíga aðgerðum breskra stjórnvalda gegn Íslandi og sagði þær ekki hjálplegar í þeim mikla efnahagsvanda sem upp væri kominn.
    Á fundi þingmannanefndar EES var einnig tekin fyrir skýrsla Katrínar Júlíusdóttur og Evrópuþingmannsins Bilyana Raeva um framtíðarhorfur EES í ljósi þróunar og breytinga á stofnanakerfi ESB. Evrópuþingmaðurinn Richard Corbett gerði grein fyrir auknu hlutverki þjóðþinga aðildarlanda ESB ef Lissabon-sáttmálinn verður fullgiltur en þá munu frumvörp framkvæmdastjórnar ESB send þjóðþingunum til samráðs áður en þau eru send ráðherraráði og Evrópuþingi. Katrín kynnti drög að ályktun þar sem m.a. var óskað eftir að slíkt samráð tæki einnig til þjóðþinga EFTA/EES-ríkjanna þegar um löggjöf um innri markaðinn er að ræða auk þess sem hvatt var til nánara samstarfs þjóðþinga EES/EFTA-ríkjanna við Evrópuþingið. Evrópuþingmaðurinn Wolf Klinz gerði tillögu um nýja málsgrein í ályktunartextann um yfirstandandi fjármálakreppu og könnun á lagaumhverfi fjármálastofnana og að tryggt yrði að allir aðilar stæðu við skuldbindingar sínar. Bjarni Benediktsson fékk samþykktar breytingar á málsgreininni þar sem hvatt var til að í úttekt EES-ríkjanna á lögum um fjármálastofnanir yrðu skuldbindingar skýrt skilgreindar og lagalegri óvissu eytt.
    Af öðrum málum á fundi þingmannanefndar EES má nefna skýrslu og ályktun um áætlanir ESB á sviði rannsókna og menntamála, heilbrigðisþjónustu þvert á landamæri innan EES og þróunarstyrki Sviss til stækkunar ESB. Í fundarlok var ákveðið að á starfsárinu 2009 yrðu unnar skýrslur um svæðisbundna samvinnu innan EES, vinnumarkaðslöggjöf ESB, áhrif fjármálakreppunnar á EES auk hefðbundinnar ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins.

66. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA, 92./60. fundur þingmannanefndar EFTA og 39. sameiginlegi fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA sem haldnir voru í Genf 25. nóvember 2008.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundina þau Katrín Júlíusdóttir, formaður, og Árni Þór Sigurðsson, auk Stígs Stefánssonar, ritara Íslandsdeildar.
    Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var m.a. rætt um eftirfylgni við heimsókn framkvæmdastjórnarinnar til Færeyja þar sem Færeyingar gerðu grein fyrir umsókn sinni um aðild að EFTA. Að heimsókninni lokinni barst bréf frá færeyska þinginu þar sem óskað var eftir áheyrnaraðild að þingmannanefnd EFTA. Svein Roald Hansen, formaður nefndarinnar, sagði ýmsar hindranir á formlegri áheyrnaraðild og lagði til að komið yrði til móts við Færeyinga með því að bjóða þeim öðru hvoru á fundi nefndarinnar þegar mál væru til umræðu sem tengdust hagsmunum þeirra. Íslandsdeild og landsdeild Liechtenstein studdu tillögu Hansens en svissneska landsdeildin fór fram á að afgreiðslu málsins yrði frestað til næsta fundar framkvæmdastjórnarinnar sem gekk eftir.
    Þá var á fundinum rætt um form hinna tveggja árlegu funda þingmannanefndar og ráðherra EFTA og lagt til að skoðað yrði að breyta fyrirkomulagi vetrarfundarins þannig að þingmannanefndin hitti utanríkisráðherra EFTA-ríkjanna í tengslum við fundi EES-ráðsins í Brussel. Hugmyndum framkvæmdastjórnarinnar var vísað til EFTA-ráðherranna.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var helsti dagskrárliðurinn staða og horfur í Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO. Willy Alfaro, framkvæmdastjóri hjá WTO, gerði grein fyrir stöðu lotunnar sem hófst árið 2001 og beinist fyrst og fremst að því að efla þróun með því að auka frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Viðræðurnar hafa einkum beinst að þremur þáttum, lækkun tolla á landbúnaðarvörur, lækkun á niðurgreiðslum til landbúnaðarframleiðslu og lækkun útflutningsstyrkja til landbúnaðarins. Aukin opnun markaða Vesturlanda fyrir landbúnaðarvörur frá þróunarríkjum er mikilvæg lyftistöng til þróunar en Vesturlönd hafa verndað landbúnað sinn mjög gegn erlendri samkeppni. Alfaro sagði yfirstandandi fjármálakreppu hafa tvenns konar áhrif á viðræðurnar, annars vegar ýtti hún undir nauðsyn þess að ná niðurstöðu til að tryggja þann efnahagslega ávinning sem óneitanlega hlýst af fyrir hagkerfi heimsins en um leið togaði kreppan í aðra átt með auknum þrýstingi á efnahagslega verndarstefnu í einstökum ríkjum.
    Katrín Júlíusdóttir spurði hvaða augum WTO liti hina auknu áherslu sem ríki og ríkjahópar hafa lagt á tvíhliða eða svæðisbundna fríverslunarsamninga eftir að svartsýni jókst um afdrif Doha-samningalotunnar. Eru þessir samningar jákvæð viðbót við starf WTO eða er hætta á að þeir minnki þrýsting á að lotan verði kláruð? Alfaro svaraði því til að í fyrstu hefði WTO álitið slíka samninga ganga gegn hlutverki stofnunarinnar en það hefði breyst. Nú liti WTO slíka samninga jákvæðum augum svo lengi sem þeir væru opnir og gagnsæir og sköpuðu ekki auknar viðskiptahindranir fyrir ríki sem ekki eru aðilar að þeim.
    Á sameiginlegum fundi þingmannanefndarinnar og ráðherra EFTA var annars vegar fjallað um þróun EES-samningsins og hins vegar þróun í samstarfi EFTA við þriðju ríki og gerð fríverslunarsamninga, en þetta eru fastir dagskrárliðir á fundum þingmanna og ráðherra EFTA. Ísland fer um þessar mundir með formennsku í ráðherraráði EFTA og flutti Björgvin G. Sigurðsson framsögu um samstarf við þriðju ríki. Í máli hans kom m.a. fram að fríverslunarsamningur EFTA og Kólumbíu hefði verið undirritaður, niðurstöður vinnuhóps um mögulegan fríverslunarsamning EFTA og Rússlands lægju fyrir og í undirbúningi væri að hefja formlegar samningaviðræður á árinu 2009, og jafnframt að ráðgert væri að hefja fríverslunarviðræður við Úkraínu, Albaníu og Serbíu á fyrri hluta árs 2009.
    Árni Þór Sigurðsson beindi fyrirspurn til ráðherranna um hvað liði hugmyndum um stofnun sérstakrar nefndar innan EFTA með fulltrúum sveitarstjórna og af hverju málið hefði gengið jafnhægt fram og raun bæri vitni. Björgvin G. Sigurðsson svaraði því til að ráðherrarnir hafðu þá um morguninn beðið vinnuhóp embættismanna sem skoðar málið að hraða vinnu sinni og að hann vonaðist eftir jákvæðri niðurstöðu af starfi þeirra.
    Svein Roald Hansen, formaður þingmannanefndar EFTA, flutti framsögu um framkvæmd og þróun EES-samningsins. Hann ræddi m.a um aukið hlutverk þjóðþinga ESB ef Lissabon- sáttmálinn verður fullgiltur og hvernig það gæti mögulega leitt til tilsvarandi styrkingar í Evrópustarfi þjóðþinga EES/EFTA-ríkjanna. Katrín Júlíusdóttir greindi frá því að sameiginleg þingmannanefnd EES hygðist gera sérstaka vinnuskýrslu um áhrif yfirstandandi fjármálakreppu á EES og spurði ráðherrana álits á málinu. Rita Kieber-Beck, utanríkisráðherra Liechtenstein, svaraði því til að mestu áhrif fjármálakreppunnar á EES yrðu einfaldlega ef hún yrði þess valdandi að einhver EES/EFTA-ríki mundu sækja um aðild að ESB. Nokkur umræða spannst um aukinn stuðning við ESB-aðild á Íslandi í kjölfar bankahrunsins og yfirstandandi efnahagsþrenginga sem Björgvin G. Sigurðsson gerði grein fyrir. Árni Þór Sigurðsson tók einnig til máls og sagði Evrópumálin til sérstakrar skoðunar innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og að þau yrðu tekin fyrir á flokkráðsfundi sem þá var fyrirhugaður í byrjun desember.

6. Ályktanir þingmannanefndar EES árið 2008.
    –        Ályktun um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2007, samþykkt í Svartsengi 29. apríl 2008.
    –        Ályktun um heilbrigðisþjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu, samþykkt í Svartsengi 29. apríl 2008.
    –        Ályktun um rannsóknar- og menntaáætlanir: EES og EFTA-ríkin, samþykkt í Brussel 4. nóvember 2008.
    –        Ályktun um framtíðarhorfur EES, samþykkt í Brussel 4. nóvember 2008.

    
Alþingi, 17. mars 2009.


Katrín Júlíusdóttir,


form.

Bjarni Benediktsson,
varaform.

Árni Þór Sigurðsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Illugi Gunnarsson.